„Ætlum að halda haus“

Einar Sindri „1ar“ Einarsson leikmaður Rafík í Turf-deildinni í Rocket …
Einar Sindri „1ar“ Einarsson leikmaður Rafík í Turf-deildinni í Rocket League. Grafík/Turf-deildin

Nú er ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum Turf-deildarinnar í Rocket League. Rafík var eitt tveggja liða sem tryggðu sér sæti í undanúrslitum með góðu gengi í deildarkeppninni. Einar Sindri „1ar“ Einarsson spilar með liði Rafík, en hann ræddi tímabilið í samtali við mbl.is.

Rafík luku deildarkeppni Turf-deildarinnar í öðru sæti, á eftir ósigruðu liði LAVA esports, en liðið mætir Þór Akureyri í undanúrslitum á sunnudaginn. Rafík þurfti fyrir tímabilið að finna nýjan byrjunarliðsmann sem gerði þeim erfitt fyrir.

1ar, leikmaður Rafík, stóð sig vel á tímabilinu en hann skoraði 39 mörk, gaf 37 stoðsendingar og varði 59 skot.

Fengu nýjan leikmann inn rétt fyrir upphaf tímabils

„Tímabilið byrjaði ekki eins vel og við vildum, en við bjuggumst alveg við því vegna þeirrar breytingar sem við gerðum rétt áður en tímabilið hófst. Óli ákvað að stíga niður í stöðu varamanns, svo ég og Smushball þurftum að finna nýjan byrjunarliðsmann á stuttum tíma,“ segir 1ar. Leit hans og Smushball skilaði árangri og gekk leikmaðurinn Atli til liðs við liðið stutt fyrir tímabilið.

„Við hefðum ekki getað fundið betri leikmann en hann Atla. Tímabilið er búið að fara í það að venjast hvor öðrum og prófa nýja leikstíla til að finna hvað hentar okkur best. Þrátt fyrir erfiðleika í byrjun er þetta búið að vera flott tímabil hjá okkur og ótrúlega skemmtilegt. Við getum ekki beðið eftir því næsta!“ bætir 1ar við.

Náðu markmiðinu þrátt fyrir erfiða byrjun

„Þrátt fyrir að tímabilið hafi verið dálítill rússíbani þar sem við hefðum átt að sigra nokkrar viðureignir sem við töpuðum, þá náðum við markmiðinu okkar, sem var að lenda meðal efstu tveggja liðanna í deildinni. 

LAVA eru að sjálfsögðu mjög sterkir og að finna besta spilastílinn á móti þeim hefur tekið tíma, en við vonumst til að spila uppá okkar besta núna um helgina,“ segir 1ar aðspurður um markmið liðsins á tímabilinu.

Rafík ætlar að spila mikið saman til að undirbúa sig fyrir undanúrslitin sem verða leikin á sunnudaginn. “Við ætlum að koma jákvæðir inn í leikina og halda haus alla úrslitakeppnina,” segir 1ar þegar hann ræddi úrslitahelgina.

Hvetur LAVA áfram

„LAVA kom mér á óvart í deildarkeppninni. Eftir að liðsbreytingar voru gerðar þegar KR White varð LAVA esports og alvarleikinn tók við eru liðið það sterkasta sem hefur verið á Íslandi frá upphafi.

Þrátt fyrir að vera andstæðingar mínir þá hvet ég LAVA til að slaka ekki á og halda áfram að vinna að markmiðum sínum. Ég á von á einhverju stóru frá þessu liði á komandi árum.

Mér fannst skemmtilegast að mæta LAVA, þrátt fyrir að við höfum verið slakir á móti þeim í fyrstu umferð var sú seinni mun meira spennandi og mjög lærdómsrík,“ segir 1ar og hvetur LAVA áfram.

Spáir LAVA Íslandsmeistaratitlinum

1ar spáir LAVA Íslandsmeistaratitlinum, Rafík öðru sætinu og KR því þriðja. Rafík vonast þó til að hafa trúa á sér til að eiga möguleika á því að lenda í fyrsta sæti. Rafík mætir Þór Akureyri í seinni undanúrslitaleik Turf-deildarinnar á sunnudaginn.

Allir leikir úrslitakeppni Turf-deildarinnar eru sýndir í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport. Útsending hefst á sunnudaginn klukkan 19:00 og má finna upplýsingar um næstu leiki og úrslit hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert