Tveir leikir fóru fram í Vodafonedeildinni í Counter-Strike:Global Offensive í kvöld. SAGA mættu Kórdrengjum, og Dusty og Þór lokuðu sjöttu umferðinni með toppslag.
SAGA og Kórdrengir mættust í fyrsta leik kvöldsins, en fyrir leik voru Kórdrengir án stiga og SAGA höfðu tvö stig. Bæði lið eru búin að koma sér þægilega fyrir í neðri hluta deildarinnar og þurfa að fara gefa í vilji þau taka þátt í baráttunni um efstu fjögur sæti deildarinnar.
Leikið var í kortin Nuke og var staða leiksins jöfn framanaf, en SAGA leiddi 8-7 í hálfleik. Kórdrengir voru slakir í seinni hálfleik og unnu aðeins þrjár lotur, á meðan SAGA vann átta. Leikurinn endaði með 16-10 sigri SAGA, og sitja þeir nú í sjötta sæti með fjögur stig. Kórdrengir eiga hinsvegar enn eftir að finna sín fyrstu stig í Vodafonedeildinni.
Dusty og Þór mættust í sannkölluðum toppslag deildarinnar en fyrir leikinn voru bæði liðin jöfn stiga og höfðu ekki tapað leik. Kortið Vertigo varð fyrir valinu og var mikil spenna meðal áhorfenda í upphafi leiks.
Dusty spiluðu betur í fyrri hálfleik og leiddu 9-6. Þór byrjaði seinni hálfleik betur og kom stöðunni í 9-9, en Dusty svaraði strax og setti stöðuna í 12-9. Þór hingsvegar svaraði strax aftur og vann þrjár lotur og jöfnuðu leikinn aftur. Staðan á þessum tímapunkti var 12-12 og var mikil spenna í loftinu, enda toppsætið í húfi.
Dusty sýndu mikinn styrkleika og unnu síðustu fjórar loturnar, á meðan Þór unnu aðeins eina lotu og endaði leikurinn með 16-13 sigri Dusty. Dusty sitja því einir í efsta sæti deildarinnar eftir sex umferðir, og hafa þeir ekki tapað leik.