Íslandsmótið í tölvuleiknum StarCraft 2 verður haldið í rafíþróttahöll Arena á sunnudaginn, skráning er nú þegar hafin og öllum er frjálst að taka þátt.
Arena býr að 120 PC-tölvum frá Alienware en þær eru taldar með þeim bestu á markaðnum auk þess að lyklaborð og mýs eru frá sama fyrirtæki. Keppendum er hinsvegar frjálst að taka með sér sinn eigin búnað svo sem lyklaborð, mús, heyrnatól og/eða músamottu.
Mótið hefst klukkan 12:00 en mælt er með að keppendur mæti um klukkustund fyrr til þess að koma sér fyrir og stilla sínar vélar eftir sínum þörfum.
Keppendur spila í keppnisherbergi sem Arena býður sérstaklega upp á fyrir viðburði sem slíka en áhorfendur geta fylgst með á Twitch-rás Rafíþróttasamtaka Íslands og eins verða leikirnir sýndir á stórum skjá í höllinni.
„Þetta er fyrsta Starcraft mótið sem við erum að halda hjá okkur, og mikil vinna hefur verið á bak við í stúdíoinu að setja upp streymið,“ segir Julios Adam Freysson, vaktstjóri hjá Arena, í samtali við mbl.is.
Þátttökugjaldið er 3,500 krónur og innifalið í þátttöku á mótinu er gjaldfrjáls spilatími þangað til að mótinu lýkur.
Verðlaun eru í boði fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti en sigurvegarar fá tíu klukkustundir af spilatíma ásamt 5,000 króna inneign á veitingastaðnum Bytes.
Nánari upplýsingar má finna hér á vefsíðu Arena og eins fer skráning í mótið fram þar.