Úrslitakeppni Turf-deildarinnar í Rocket League hófst í gær þegar fjórðungsúrslit voru leikin. KR mættu Midnight Bulls og Þór Akureyri mættu Somnio í gærkvöldi og er nú ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum.
Báðar viðureignir fjórðungsúrslita voru best-af-sjö, sem þýðir að fyrsta liðið til að sigra 4 leiki stóð uppi sem sigurvegari. Viðureign KR og Midnight Bulls átti að vera jafnari viðureign gærkvöldsins ef horft var til stöðu deildar og tölfræði. Bæði lið voru jöfn stigum eftir deildarkeppnina og unnu eina viðureign hvor í innbyrðis baráttu milli sín.
Midnight Bulls unnu fyrsta leik viðureignarinnar og leit út fyrir að spennandi viðureign væri framundan. KR tóku á skarið eftir að hafa tapað fyrsta leik og unnu fjóra leiki í röð, og lauk viðureigninni því með 4-1 sigri KR. Með sigrinum tryggðu KR-ingar sér sæti í undanúrslitum þar sem þeir mæta ósigruðu liði LAVA esport.
Þór Akureyri og Somnio mættust í seinni viðureign fjórðungsúrslita. Þór Akureyri lentu í þriðja sæti í deildarkeppninni en Somnio í því sjötta. Ef litið var til tölfræði og gengi liðanna í deildinni átti Þór Akureyri að hafa yfirburði í þessari viðureign.
Upphaf viðureignarinnar kom aðdáendum í opna skjöldu, en Somnio sigruðu fyrstu tvo leiki viðureignarinnar og voru á góðri leið með að stilla Þór Akureyri upp við vegg. Þór Akureyri virtust þá vakna til lífsins, en þeir sigruðu fjóra leiki í röð eftir það. Með sigrinum í þeirri viðureign tryggðu Þór Akureyri sér sæti í undanúrslitum og spila þar á móti Rafík.
Úrslitakeppnin heldur áfram á sunnudaginn þegar leikin verða undanúrslit og úrslit. Allar viðureignir verða sýndar í beinni útsendingu á Stöð2 esport og Twitch rás RLÍS, en útsending hefst á sunnudaginn klukkan 19:00.