Það er sannkallaður stórleikur í Vodafonedeildinni í Counter-Strike:Global Offensive í kvöld. Dusty og Þór sem deila nú toppsætinu mætast í spennandi leik og mun sigurliðið taka forystu í deildinni.
SAGA og Kórdrengir mætast í fyrri viðureign kvöldsins klukkan 20:30. Í kjölfarið mætast Dusty og Þór klukkan 21:30, og er búist við spennuleik.
Bæði Þór og Dusty hafa unnið alla sína leiki til þessa og sitja jöfn á toppi deildar með 10 stig, eða fimm sigraða leiki. Það lið sem sigrar leikinn í kvöld tekur fram úr hinu og mun sitja eitt á toppi deildarinnar eftir sex umferðir.
Útsending kvöldsins hefst klukkan 20:15 og verður sýnd á Stöð2 esport og Twitch rás RÍSÍ. Hvaða lið mun taka forystuna? Mun Þór taka fram úr Dusty, sem hafa verið næstum óstöðvandi síðustu tímabil í Vodafonedeildinni? Fylgstu með í kvöld til að finna svör við þessum spurningum.