LAVA esports fóru ósigraðir í gegnum deildarkeppni Turf-deildarinnar í Rocket League á tímabilinu sem er að líða. LAVA mætir KR í undanúrslitum á morgun, sunnudag. Brynjar Örn „BNZ“ Birgisson leikur með liði LAVA en hann ræddi við mbl.is um tímabilið sem er að líða.
LAVA esports eru taldir líklegastir til að lyfta Íslandsmeistaratitlinum á morgun þegar úrslitakeppnin fer fram. Liðið hefur farið taplaust í gegnum alla deildarkeppnina og luku deildarkeppninni örugglega í fyrsta sæti.
BNZ er einn af bestu spilurum landsins og hefur hann staðið sig vel á tímabilinu. Hann hefur skorað 35 mörk, gefið 36 stoðsendingar, varið 27 skot og er með 37% skotnýtingu.
„Liðinu gekk frábærlega á tímabilinu, en við stefndum að sjálfsögðu á að vinna deildarkeppnina og gerðum gott betur og fórum taplausir í gegnum deildina,“ segir BNZ og bætir við að liðið hafi náð markmiðum sínum í Turf-deildinni.
„Planið er að taka æfingar alla daga fram að úrslitakeppninni, koma hópnum saman og gíra okkur í úrslitakeppnina,“ segir BNZ um undirbúninginn fyrir úrslitakvöldið.
„Midnight Bulls komu mér verulega á óvart, en ég vanmat þá fyrir tímabilið og þeir stóðu sig mjög vel á tímabilinu,“ segir BNZ. Hann segir að fyrri viðureign þeirra við Rafík hafi verið skemmtilegasta viðureignin á tímabilinu.
„Eftir úrslitakeppnina ætlum við að finna fleiri erlend mót til að taka þátt í ásamt því að spila æfingaleiki við fleiri erlend lið. Svo stefnum við á það að vinna næsta tímabil líka,“ segir BNZ, en ekki er búið að ákveða neinar breytingar á liðinu fyrir næsta tímabil.
„Áfram LAVA!“ segir BNZ svo að lokum.
BNZ spáir liðinu sínu, LAVA esports, Íslandsmeistaratitlinum, og spáir svo Rafík öðru sætinu og KR því þriðja. Það verður spennandi að fylgjast með BNZ og LAVA í úrslitakeppninni, og sjá hvort að þeir fái einhverja mótspyrnu frá þeim liðum sem þeir mæta.
Allir leikir úrslitakeppni Turf-deildarinnar eru sýndir í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport. Útsending hefst á morgun, sunnudag, klukkan 19:00 og má finna upplýsingar um næstu leiki og úrslit hér.