Úrslitakeppni Turf-deildarinn í Rocket League lauk í gær með sigri LAVA esports. LAVA tryggðu sér Íslandsmesitaratitilinn í Rocket League á tímabili þrjú án þess að tapa viðureign á tímabilinu, hvorki í deildar- né úrslitakeppni.
Undanúrslitin og úrslit voru spiluð í gærkvöldi. Úrslitakeppnin var leikin í einfaldri útsláttarkeppni og allar viðureignir voru best-af-sjö nema úrslitaviðureignin sem var best-af-níu.
LAVA mættu KR í fyrstu undanúrslitaviðureign sem lauk með 4-1 sigri LAVA esports. Rafík og Þór Akureyri mættust í seinni undanúrslitaviðureign kvöldsins en Þór Akureyri sigraði þá viðureign 4-3.
Þrátt fyrir að KR og Rafík hafi tapað viðureignum sínum í undanúrslitum voru þau ekki úr leik, en liðin mættust í viðureign uppá þriðja sætið sem lauk með 4-1 sigri Rafík.
Sigurvegarar beggja undanúrslitaviðureigna, LAVA esports og Þór Akureyri, mættust í úrslitaviðureign og kepptust um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin mættust í best-af-níu viðureign, sem þýðir að fyrsta liðið til að vinna fimm sigra í viðureigninni myndi tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Í LAVA esports eru þeir EmilVald, BNZ, Vaddimah og Paxole, en í Þór Akureyri eru hemmigumm, kartofla, DanniJuice og Smívar.
LAVA esports héldu áfram að vera óstöðvandi einsog þeir voru í deildarkeppninni, og sigruðu Þór Akureyri nokkuð þægilega 5-0 í viðureigninni. Verðskuldaður sigur og Íslandsmeistaratitill LAVA esports á tímabili þrjú í Turf deildinni er því staðreynd.
EmilVald leikmaður LAVA esports var gjörsamlega óstöðvandi á vellinum í gærkvöldi í öllum leikjum úrslitaviðureignarinnar og sýndi hann frábær tilþrif.
Þór Akureyri sýndu þó karakter með því að gefast ekki upp og reyndu að halda pressu á LAVA alla viðureignina.
LAVA esports hafa nú lyft Íslandsmeistaratitlinum í Rocket League í fyrsta sinn undir nafninu LAVA esports. Til gamans má geta að sami kjarni leikmanna varð Íslandsmeistari á tímabili eitt og tvö.
Þór Akureyri lentu í öðru sæti í Turf-deildinni á tímabilinu, Rafík í því þriðja og KR í fjórða. Næsta tímabil hefst í byrjun næsta árs og verður auglýst síðar.