Kristófer Óli Birkisson hefur ásamt vinum sínum stofnað til viðburðs í tölvuleiknum Valheim. Var það til þess að efla samfélagið í Valheim á Íslandi og eins til þess að kynnast nýju fólki í veröldinni í gegnum leikinn.
„Ég er búinn að vera að spila núna í tvær vikur og tilgangurinn var bara til að efla íslenska samfélagið í kringum Valheim og einnig til að hitta nýtt fólk allsstaðar í veröldinni,“ segir Kristófer í samtali við mbl.is en hann setti inn færslu á Tölvuleikjasamfélagið á Facebook þar sem hann auglýsti viðburð í Valheim.
Hefur þessi viðburður verið haldinn áður og var það síðastliðinn sunnudag en þá spiluðu þeir vinir nokkrir saman og stefna að því að halda aftur slíkan fjölspilunar-viðburð næsta sunnudag.
„Þetta er ekki mót, bara til að hafa gaman og skemmta sér að sökkva skipum,“ segir Kristófer.
Kristófer er einnig að streyma á Twitch rásinni Coca_kroli og er með vikulegan lið á föstudögum sem hann kallar Karaoke friday en þá syngur hann fyrir áhorfendur eftir óskum og eins eru fleiri velkomnir að syngja með honum.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í viðburðum fjölspilunarhóps í Valheim geta gerst meðlimir á Discord-rás sem útbúin var sérstaklega fyrir þetta og boðshlekkinn má finna hér.