Það eru breytingar hjá XY Esports í League of Legends hvað varðar leikmenn sem og þjálfara en XY Esports birti færslu á Facebook þar sem greint var frá breytingunum.
Leikmennirnir Lagiah og Regiment Odin hafa sagt skilið við liðið en þeir voru fengnir til liðs við XY fyrir tímabilið og stóð XY uppi sem deildarmeistarar Flatadeildarinnar.
Eins er liðsstjórinn Arnar Bjarni, einnig þekktur sem „Oktopus“, hættur og þakkar XY Esports honum fyrir frábært starf ásamt því að óska honum góðs gengis í komandi verkefnum.
Í stað Arnars Bjarna mun fyrrum þjálfari Fylkis í League of Legends, Huginn Orri Hafdal, taka við hans starfi innan XY ásamt því að taka að sér þjálfarastöðu en hann er þekktur og virtur einstaklingur í rafíþróttasenu Íslands.
„Ég hugsa um liðsheild og þjálfun á annan hátt en flestir. Ég stjórna ekki öllu heldur er þetta heild sem vinnur saman að því markmiði að verða betri,“ segir Hafdal í samtali við mbl.is.
XY Esports tekur fram að hans helstu verkefni verða að búa til nýtt rafíþróttalið og koma því lengra í keppnissenu League of Legends ásamt því að bjóða hann velkominn í „XY fjölskylduna“.
„Mitt starf er í raun og veru bara að passa upp á hlutina, að enginn sé að slást og að allir séu vinir eða í það minnsta vinnufélagar sem vilja vinna saman að sameiginlegu markmiði sem er auðvitað, að vinna og að bæta sig sem einstaklingar jafnt sem heild.“
Hafdal reiknar með því að hefja störf hjá XY verði mikil vinna og er hann nú þegar byrjaður að huga að því hvernig þetta verða mun vera og segir að í hvert skipti sem einhver nýr stígur inn þá geti allt breyst.
Óhætt er að segja að spennandi tímar séu framundan hjá XY Esports og verður áhugavert að fylgjast með framvindu nýs liðaskipan sem Hafdal og XY eru að vinna að.