Í tilefni tuttugu ára afmæli Xbox hefur fyrirtækið búið til rafrænt safn þar sem farið er yfir sögu Xbox frá árinu 1999 að deginum í dag.
Safnið er í þrívídd og má þar skoða sögu tölvuleikja sem og leikjatölva frá fyrirtækinu en við „komu“ á safnið, sem felst í opnun hlekksins á safnið, standa þeir frammi fyrir fjórum Xbox leikjatölvum, verðlaunabikar og Halo styttu. Með því að smella á þessa hluti eru gestir leiddir í viðeigandi sýningarsal.
Gestir notast síðan við lyklaborðið til þess að labba um í sýningarsölunum og færa myndavélina með músinni en þá geta þeir nálgast myndir og fróðleik sem býr í hverjum sali fyrir sig.
Eins má finna hljóð- og myndbandsupptökur af merkum atburðum eða hugmyndum á bak við upplifanir sem Xbox hefur í gegnum tíðina boðið upp á.
Ef að gestir skrá sig inn á Microsoft aðganginn sinn munu þeir einnig hafa kost á að skoða sitt eigið safn sem felur í sér upplýsingar og fróðleik um þeirra árangur og feril frá því að Xbox 360 tölvan kom út. Má nefna þeirra mest spiluðu tölvuleiki, afrek innanleikjar og fleira.
Ekki er vitað hversu lengi rafræna safnið mun vera uppi svo áhugasamir eru hvattir til þess að skoða safnið sem fyrst.