Troðfyllti munninn af sykurpúðum

DiamondMynXx með fullan munn af sykurpúðum í afmælisstreyminu sínu.
DiamondMynXx með fullan munn af sykurpúðum í afmælisstreyminu sínu. Skjáskot/Twitch/DiamondMynXx

Móna Lind, einnig þekkt sem DiamondMynXx, tróð upp í sig sykurpúðum fyrir áhorfendur á afmælisstreymi sem hún hélt í síðustu viku til að fagna eins árs streymisferli sínum.

Streymdi lengur en hálfan sólarhring

Hún hafði sett sér markmið áður en streymið hófst og var það að streyma í fimm klukkustundir en fyrir hvern áskrifanda sem bættist við meðan á streyminu stóð lengdist tíminn.

„Það gekk ótrúlega vel og ég skemmti mér frábærlega og ég held að þeir sem horfðu á hafi skemmt sér álíka vel, allavega miðað við það sem stóð í spjallinu,“ segir Móna í samtali við mbl.is en meðan á streyminu stóð var spjallglugginn mjög virkur.

Streymdi Móna í heild í fimmtán og hálfa klukkustund og spilaði þá tölvuleiki fyrir áhorfendur, málaði sig sem persónan Pennywise úr hryllingsmyndinni IT, tróð upp í sig sykurpúðum ásamt fleiri skemmtilegum uppákomum.

Upplýsingar og dagskrárliður afmælisstreymis Mónu Lindar, einnig þekkt sem DiamondMynXx.
Upplýsingar og dagskrárliður afmælisstreymis Mónu Lindar, einnig þekkt sem DiamondMynXx. Grafík/Móna Lind Kristinsdóttir

Hundrað fleiri áskrifendur

„Planið var fyrst og fremst að taka daginn frá í langt streymi og hafa gaman með þeim sem hafa fylgt mér á Twitch. Ég ákvað að henda í svokallað „subathon“ bara til að prófa og setti markið bara hátt  af hverju ekki?“ segir Móna.

Eftir þetta streymi var Móna 101 áskrifanda ríkari og má horfa á streymið í heild á twitchrásinni DiamondMynXx.


Gekk vonum framar

Sem fyrr segir tróð Móna sykurpúðum upp í sig fyrir áhorfendur ásamt öðrum uppákomum en þeir fengu að segja til um hversu mörgum sykurpúðum hún ætti að reyna að koma fyrir.

Sögðu áhorfendur henni að koma fyrir fimmtán sykurpúðum. Í myndbandinu hér að ofan má sjá Mónu reyna við það.

„Það kemur mér auðvitað alltaf á óvart hvað það eru margir að horfa og hanga með mér á streyminu og bara hvað fólk sem horfir er magnað og tilbúið að styðja mig,“ segir Móna.

„Þetta streymi fór fram úr öllum mínum vonum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert