Ármann kominn í þriðja sætið

Kruzer leikmaður Ármanns spilaði vel á móti XY í sjöundu …
Kruzer leikmaður Ármanns spilaði vel á móti XY í sjöundu umferð Vodafonedeildarinnar. Grafík/Vodafonedeildin

Sjöundu umferð Vodafonedeildarinnar í Counter-Strike: Global Offensive er nú lokið. Síðari tveir leikir umferðarinnar fóru fram í kvöld. XY mætti Ármanni og Dusty mætti Vallea.

Fyrri hálfleikur varð XY að bana

Fyrri leikur kvöldsins var leikur XY og Ármanns. XY voru fyrir leik í þriðja sæti deildarinnar á eftir Dusty og Þór, en Ármann voru í sjötta sæti, þó aðeins tveimur stigum lægri en XY.

Liðin héldu af stað í kortinu Mirage og átti Ármann eftir að eiga frábæran fyrri hálfleik og leiddu 11-4 í hálfleik. Seinni hálfleikur var aðeins jafnari, en það þýddi lítið fyrir XY þar sem þeir þurftu að sigra seinni hálfleik með yfirburðum til að eiga möguleika á sigri.

Lauk fyrri leik kvöldsins með 16-10 sigri Ármanns sem nú er kominn í þriðja sætið í deildinni og XY fór niður í það fjórða. 

Dusty halda áfram að sigra

Seinni leikur kvöldsins var leikur Dusty og Vallea. Dusty voru fyrir leik taplausir á toppi deildarinnar en Vallea voru í fimmta sæti. 

Dusty og Vallea mættust í kortinu Inferno og var staðan 8-7 í hálfleik, Vallea í hag. Kom það aðdáendum á óvart, enda voru Dusty taplausir í deildinni fyrir leikinn. Dusty hinsvegar jarðaði Vallea í síðari hálfleik, en Vallea sigruðu aðeins tvær lotur í þeim hálfleik.

Lokastaðan var 16-10 fyrir Dusty sem nú sitja enn á toppi deildarinnar ósigraðir. Vallea halda sér í fimmta sætinu og eiga góðan möguleika á að blanda sér í baráttuna um þriðja sætið í næstu umferðum.

Næstu leikir Vodafonedeildarinnar í CS:GO eru á þriðjudaginn næsta, en þá hefst áttunda umferð. Þá mætast Fylkir og Kórdrengir, og svo Dusty og Ármann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert