Rafíþróttir jákvæður kraftur fyrir einstaklinga

Ljósmynd/Axville

Grasrótarstarf er mikilvægt þegar kemur að uppbyggingu stöðugs umhverfs í rafíþróttum. Einnig spilar það mikilvægt hlutverk í viðhaldi vistkerfis rafíþrótta, óháð staðsetningu og landi.

Grant Rousseau, forstjóri rafíþrótta hjá breska félaginu Guild Esports, ræddi grasrótarstarf og önnur mál í hlaðvarpi sem kom út í vikunni.

Áhersla á grasrótarstarf og uppbyggingu frá grunni

Rousseau kemur fram í viðtali í breska hlaðvarpsþættinum TBD: Beyond the Basement, en hlaðvarpið fókusar á umræðu um rafíþróttir og er aðgengilegt á streymisveitunni Spotify. Í hlaðvarpinu ræðir Rousseau um grasrótarstarf félagsins Guild Esports og önnur málefni tengd rafíþróttum. 

„Rafíþróttir geta verið tveir hlutir; starfsferill fyrir þá sem eru góðir í rafíþróttum eða jákvæður kraftur sem einstaklingar njóta góðs af,“ er haft eftir Rousseau og bendir hann á að rafíþróttir geti hjálpað einstaklingum með félagslegan vöxt og að öðlast aukinnar færni á mörgum sviðum utan tölvuleikja.

Hann bætir við að áherslur Guild Esports á grasrótarstarf og möguleiki á uppbyggingu frá grunni í rafíþróttum hjá félaginu hafi verið það sem heillaði hann.

Einnig talar Rousseau um David Beckham, sem er einn af eigendum félagsins, og ræðir rafíþróttasenuna í Bretlandi. Telur hann Bretland vera eftir á þegar kemur að þróun rafíþrótta og vill að Bretar stígi upp og sýni gott fordæmi í rafíþróttum á heimsvísu. Hlaðvarpið er hægt að hlusta á í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert