Fyrstu persónu skotleikir hafa alltaf verið vinsælir, enda er fjöldinn allur af slíkum leikjum í boði. Færst hefur í aukana að vinsælir og vandaðir leikir séu gefnir út fríir til spilunar.
Eftirfarandi leikir eru allir eru fyrstu persónu skotleikir fríir til spilunar, og eru þeir allir vinsælir.
Apex Legends er svokallaður „battle royale“ leikur, þar sem margir leikmenn spila saman í stóru korti og hafa það að markmiði að fella alla mótherja, en það lið sem stendur eftir eitt á lífi lýkur leik sem sigurvegari.
Leikurinn er gefinn út af Electronic Arts og kom út í mars þessa árs. Apex legends er aðgengilegur á PC-tölvum, PlayStation 4, Xbox One, Nintendo Switch og farsímum. Hægt er að nálgast leikinn á PC-tölvur á leikjaveitunni Steam hér.
Warzone er „battle royale“ leikur líkt og Apex Legends. Leikurinn var upprunalega byggður á 2019 útgáfu Call of Duty Modern Warfare. Í kjölfar útgáfu Call of Duty: Black Ops Cold War var uppfærsla á leiknum þar sem Warzone fékk yfirhalningu í stíl Black Ops Cold War.
Leikurinn er gefinn út af Activision og kom út í mars 2020. Warzone er aðgengilegur á PlayStation 4 og 5, Xbox One og Series X/S, og PC-tölvum. Warzone er spilaður í gegnum Battle.net, sem er leikjaveit Blizzard, og hægt er að nálgast hann hér.
CS:GO er kunnugur flestum sem fylgjast með rafíþróttum. Leikurinn kom út árið 2012 og var upphaflega ekki frír til spilunar, en hann varð það í desember árið 2018. Leikinn þarf varla að kynna, en í stærstu rafíþróttadeild á Íslandi, Vodafonedeildinni, er keppt í leiknum.
Leikurinn er gefinn út af Valve og er spilanlegur á PC-tölvur, macOS-tölvur, Linux stýrikerfum, PlayStation 3 og Xbox 360. CS:GO er hægt að nálgast á leikjaveitunni Steam hér.
Halo Infinite er glænýr skotleikur sem kom út í þessum mánuði. Fjölspilunarhluti leiksins er frír til spilunar, en ekki einspilunarhluti hans sem kemur út þann 8. desember næstkomandi.
Leikurinn er gefinn út af Xbox Game Studios og er spilanlegur á PC-tölvur, Xbox One og Xbox Series X/S. Hægt er að nálgast Halo Infinite á leikjaveitunni Steam hér.
Valorant er ársgamall skotleikur sem hefur notið mikilla vinsælda frá því að hann kom út. Fyrsta heimsmeistaramót leiksins verður haldið í desembermánuði þessa árs og er spennan fyrir því móti mikil meðal aðdáenda.
Leikurinn er gefinn út af Riot Games, sem einnig gáfu út hinn vinsæla League of Legends. Valorant er einungis hægt að spila á PC-tölvur og er hann aðgengilegur á síðu Riot Games hér.