Úrslitin leikin um helgina

Virtus.pro er eitt fjögurra liða sem spila í undanúrslitum IEM …
Virtus.pro er eitt fjögurra liða sem spila í undanúrslitum IEM Winter. Skjáskot/Twitch/ESL_CSGO

Það mikið um að vera tengt rafíþróttum í Svíþjóð í augnablikinu. Bæði haustmeistaramót RLCS í Rocket League og IEM Winter í Counter-Strike: Global Offensive eru nú í gangi á LAN-viðburði þar í landi. Úrslit IEM Winter fara fram um helgina en mótið hefur verið í gangi síðan 2. desember.

Fjögur lið eftir af sextán

Sextán lið mættu til leiks í upphafi, en það er ESL sem sér um mótahald mótsins. Mótið er hluti af ESL Pro Tour sem gerir liðunum kleift að safna sér stigum til að eiga möguleika á að spila á fleiri stórmótum á tímabili ESL sem nú stendur yfir.

Mótið hófst á riðlakeppni, þar sem efstu þrjú lið hvers riðils fóru áfram í úrslitakeppnina, sem er einföld útsláttarkeppni. Nú er ljóst hvaða lið mætast í best-af-3 undanúrslitaviðureignum sem leiknar verða á laugardaginn.

Hvaða lið spila til úrslita?

Virtus.pro og Team Vitality mætast í fyrri undanúrslitaviðureign, en G2 Esports og Ninjas in Pyjamas í þeirri síðari. G2 Esports og Virtus.pro unnu sína riðla og komust því beint í undanúrslit, en Ninjas in Pyjamas og Team Vitality unnu í fjórðungsúrslitum til að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Sigurvegarar beggja undanúrslitaviðureigna mætast á sunnudaginn klukkan 15:00 í best-af-5 úrslitaviðureign. Það lið sem vinnur mótið fær 1000 ESL Pro Tour stig ásamt 13 milljónum íslenskra króna.

Allar viðureignir sem eftir eru verða sýndar á Twitch rás ESL CS:GO. Undanúrslitaviðureignirnar verða leiknar klukkan 15:00 og 18:15 á laugardaginn, en úrslitaviðureignin klukkan 15:00 á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert