Dignitas og FaZe örugg áfram

Dignitas er eitt tveggja liða sem hefur tryggt sér sæti …
Dignitas er eitt tveggja liða sem hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppni haustmeistaramóts RLCS. Skjáskot/twitch.tv/RocketLeague

Lokakeppni haustmeistaramóts RLCS í Rocket League hélt áfram í gær, og hafa nú tvö lið tryggt sér sæti í úrslitakeppni mótsins. Sex sæti eru nú laus í úrslitakeppninni, og kemur í ljós í dag hvaða sex lið tryggja sér þau sæti.

Tólf lið keppast um sex laus sæti

Liðin Dignitas og FaZe Clan hafa nú sigrað þrjár viðureignir í keppninni, og tryggja sér þannig sæti í úrslitakeppni haustmeistaramótsins. Tólf lið keppa nú um þau sex sæti sem laus eru í úrslitakeppninni. Til þess að komast í úrslitakeppnina þurfa liðin að sigra þrjár viðureignir.

Tvö lið hafa lokið keppni, þar sem þau hafa tapað þremur viðureignum í röð, en það eru liðin eRa Eternity og Tokyo Verdy Esports. 

Sex lið hafa aðeins sigrað eina viðureign, og þurfa því að sigra tvær viðureignir í dag til þess að komast í úrslit. Önnur sex lið hafa sigrað tvær viðureignir, og þurfa aðeins að sigra eina viðureign í dag til að komast í úrslit.

Það er allt í járnum hjá þeim tólf liðum sem mæta til leiks í dag, en komist þau ekki í úrslitakeppnina ljúka þau keppni og neyðast til að halda heim á leið.

Viðureignir dagsins hefjast klukkan 16:00 og verður forvitnilegt að fylgjast með hvaða sex lið tryggja sér sæti með Dignitas og FaZe Clan í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert