Leikurinn Valorant nær nú nýjum hæðum er fyrsta heimsmeistaramót í leiknum er í fullum gangi. Nú gefst íslenskum Valorant-spilurum tækifæri á láta ljós sitt skína í Norður-Evrópumóti Team Liquid.
Heimsfræga rafíþróttafélagið Team Liquid og efnishöfundurinn AverageJonas halda Norður-Evrópumót í leikum Valorant. Um er að ræða vetrarmót, svo ekki er útilokað að fleiri mót verði haldin á öðrum árstíðum.
Sérstök undankeppni er haldin fyrir þau lönd sem hafa möguleika á að keppa í mótinu, m.a. fyrir Ísland.
Íslendingum gefst nú tækifæri á að skrá sig í mótið, en fram kemur á upplýsingasíðu mótsins að þrír af fimm leikmönnum liðsins þurfi að vera íslenskir. Tvö bestu liðin í íslensku undankeppninni fá svo að spreyta sig í aðalkeppni mótsins, þar sem sextán lið frá Norður-Evrópu mæta til leiks.
Er þetta frábært tækifæri fyrir íslenska leikmenn til að koma sér á framfæri og mæta liðum frá öðrum löndum á svipuðu landsvæði.
„Samkvæmt talsmanni Team Liquid er eitt af markmiðum mótsins að leit af hæfileikaríkum leikmönnum, og var sérstaklega haft samband til að tryggja að mótið væri auglýst vel hérlendis,“ er haft eftir mótastjórn Almenna í Valorant.
Undankeppni íslensku liðanna hefst þann 17. desember næstkomandi klukkan 18:00, og lýkur skráningu klukkan 17:00 sama dag. Hægt er að skrá sig og fá fleiri upplýsingar um mótið á Challengermode síðu undankeppninnar.