Heimsmeistaramótið í Valorant er í fullum gangi, og kemur í ljós um helgina hvaða lið verður fyrsti heimsmeistarinn í leiknum. Í aðdraganda mótsins hóf Valorant sölu á útlitspakka fyrir vopn í leiknum.
Allir sem spila Valorant geta fjárfest í útlitspakkanum í verslun innan leiksins. Helmingur ágóða sölunnar rennur til þeirra tíu liða sem keppa í mótinu. Með þessari leið gefst aðdáendum tækifæri á að styrkja bestu lið heims.
Nú þegar hafa safnast 980 milljónir íslenskra króna til styrktar liðunum sem nú kepp á heimsmeistaramótinu í Valorant. Þar sem liðin eru tíu samtals, má gera ráð fyrir að hvert lið fái 98 milljónir íslenskra króna eins og staðan er núna.
Sala útlitspakkans er enn í gangi, og er áætlað að henni ljúki þann 13. desember næstkomandi. Aðdáendur hafa því enn tíma til að fjárfesta í pakkanum, og styrkja þannig bestu lið heims.