Arnar Hólm, einnig þekktur sem Vargurinn, byrjaði að spila tölvuleiki um þrettán ára en þá spilaði hann á lansetrinu geimdóm en þegar hann fermdist keypti hann sína fyrstu tölvu og þá byrjaði boltinn að rúlla af alvöru.
Hann hefur alltaf verið mikill Counter-Strike maður en þó reynt að spila aðra tölvuleiki en aldrei hefur neinn leikur gripið hug hans líkt og hann.
Spilaði hann leikinn í mörg ár en hætti svo og fór að snúa sér að lyftingum, sem hann sinnti af þrótti en smám saman hættu lyftingarnar að veita honum lífshamingju ásamt því að hafa slitið vöðva en við það datt hann í gryfju þunglyndis.
„Þá fór ég að skoða aftur til eldri tíma, þar sem maður var umkringdur öllum strákunum í tölvuleikjunum,“ segir Arnar í samtali við mbl.is en þá hann „lagði lyftingar til hliðar og tók upp músina“ ásamt því að hefja mikla sjálfsvinnu en segir Arnar leiðina hafa legið upp á við frá þessu.
„Það er svo mikil gleði að vera að spila svona félagslega leiki og einnig það að vera að stefna að einhverju, fyrir utan það hvað er mikil umhyggja í þessu samfélagi.“
Arnar spilar nú með rafíþróttaliðinu Ármann í Vodafone-deildinni en þeir liðsmenn höfðu samband við Arnar og báðu hann um að koma og spila með sér. Sögðu strákarnir í Ármanni að þeir spiluðu svokallaðan „bumbubolta“ í Counter-Strike.
„Þetta eru svona gamlir spilarar sem voru mjög góðir og þekkt nöfn, en eru í raun ekkert að spila. Þeir hafa ekki sama áhugann á þessu og ég núna, ég hef brennandi áhuga en fyrir ellefu árum síðan var hann bara farinn.“
„Þeir eru svolítið þar núna og eru bara að spila vegna þess að þetta er áhugamál,” segir Arnar en þrátt fyrir að þeir taki því rólegar en margir aðrir leikmenn í deildinni eru þeir samt í efstu sætum deildarinnar.
„Þeir eru suddalega góðir í þessum leik þegar þeir nenna að taka sig til og spila.“
„Hver einasti leikur fyrir mig núna, er að læra þetta upp á nýtt. Afþví að Counter-Strike sem ég spilaði er ekki sami leikurinn og í dag,“ segir Arnar en það hefur töluvert mikið breyst innanleikjar frá því hann spilaði áður fyrr.
„Í rauninni er ég að spila algjörlega nýjan tölvuleik og er að þjálfa upp viðbrögð í tölvuleik sem ég hef ekki snert í ellefu ár, tæplega. Svo þetta er mjög krefjandi bæði á egóið sem og metnað minn sem einstakling í íþrótt,“ segir Arnar og tekur fram að hann eigi enn eftir að læra að vera „lélegur“ í einhverju.
„Ég þarf alltaf að vera framsækinn og það er mikil ástríða í þessu fyrir mér, útaf því að allir leikir eru mikilvægir fyrir mér.“
Arnar fór til Spánar að keppa árið 2008 með landsliðsstrákana og komust þeir þar í tengsl við lið frá Singapúr. Reyndu liðsmenn frá Singapúr að fá þá til þess að koma og keppa á mótum í þeirra heimalandi en á þeim tíma var rosalega dýrt að stunda rafíþróttir og þótti ekki raunhæft markmið svo ekki varð úr því.
Hinsvegar hefur það mikið breyst í dag og hafa margir rafíþróttir að atvinnu, rétt eins og aðrir íþróttamenn.
„Að vera þekktur úti í heimi sem Vargur, hefur verið partur af manni frá upphafi, bara algjörlega óvart.“
„Mig langar klárlega að mæta á lön og spila meira, ég reyni að spila að lágmarki tvær klukkustundir á kvöldin og ég fæ mikinn skilning á heimilinu varðandi það. Ég er búinn að vera að streyma þar sem að gamlar kembur fylgjast með manni og hafa gaman að þessu,“ segir Arnar.
Arnar ráðleggur ungum og upprennandi rafíþróttamönnum að fylgjast með þeim bestu til þess að bæta sjálfa sig, horfa á leiki sem eru spilaðir og finna sér ákveðna fyrirmynd í faginu sem er komin langt og reyna að skilja það sem aðilinn er að gera og framkvæma það sama en hann segir að samskiptin skipta einnig gríðarlegu máli.
Eins telur hann unga leikmenn hafa það framyfir aðra að hversdagsleg rútína er talsvert rólegri en þeirra fullorðnu, þar hafa þeir meiri tíma til þess að spila og æfa sig.
„Þegar þú ert til dæmis í skóla þá hefuru meiri tíma til þess að dunda þér í þessu en þegar þú ert orðinn fullorðinn þá þarftu einnig að bera ábyrgð á öðrum hlutum,“ segir Arnar og telur að hefði hann rafíþróttir að atvinnu þá væri staðan allt önnur - þar sem að maður hefði talsvert meiri tíma til þess að æfa sig og spila.
„Það hefur verið sýnt og rannsakað að allir sem eru góðir í tölvuleikjum, öguðum tölvuleikjum, taka með sér slíka eiginleika út í lífið,“ segir Arnar og nefnir að þeir einstaklingar sem spila agaða tölvuleiki eigi oft auðveldar með að fylgja skipulagi og halda utan um plön.
„Ég hef alltaf sagt þetta, en rafíþróttir hafa alltaf verið hollar á vissan máta ef að kringumstæðar eru mótaðar rétt. En þegar þetta verður óhollt er þegar að krakkar eru læstir inn í herbergi með enga umsjá og fá að éta það sem þeir vilja en þá fer andlega heilsan á slæman stað og þá getur þetta orðið hættulegt upp á framtíðina.“
„Þú þarft að vera með hausinn á réttum stað afþví að viðbrögð skipta svo miklu máli, þú getur ekki verið að éta nammi og sykur allan daginn - það bitnar bara á því hvernig þér líður!“
Arnar nefnir hvað samfélagið er að þéttast og verða flott hér á Íslandi og hælir hann Rafíþróttasamtökum Íslands ásamt Arena fyrir flotta starfssemi í þá átt. Eins minnist hann á umhyggjusemi tölvuleikjasamfélags Íslands og segir að hjálpsemi náungans hafi færst í aukana þar sem að allir innan samfélagsins eru að hjálpa hvorum öðrum að ná árangri í faginu.
„Það veitir manni mjög mikla lífsgleði að fá að stunda sitt áhugamál og vera umkringdur rétta fólkinu,“ segir Arnar og telur að ef menn geti stundað vinnu, spilað og sest niður í rólegheitum þá er maður á nokkuð góðum stað í lífinu.
„Við höfum sýnt að við getum haldið stór mót og það er fjöldi fólks hér með gríðarlega mikla reynslu af þessu. Þetta er eitthvað sem er að koma og verður bara stærra, svo afhverju ekki að ýta undir að það verði flottir atvinnumenn í sportinu hérna? Eins og í öðrum íþróttum, afhverju ekki að eiga rafíþróttamenn sem skara framúr?“
„Þetta er ekki lengur tabú, eins og þegar maður var yngri þá mætti maður svo mikilli dómhörku við að spila. Bæði frá foreldrum, ættingjum og jafnvel öðrum krökkum í samfélaginu,“ segir Arnar en hann telur að hvar sem maður finni fyrir ástríðu eigi maður að rækta og ekki stoppa.