Halda mót í vélritun

Ljósmynd/Jay Zhang

Hægt er að keppa í mörgum leikjum í rafíþróttum, og eru óteljandi rafíþróttamót haldin um allan heim á ári hverju. Breskur háskóli heldur mót í vélritun, en mótið er haldið með sama sniði og önnur rafíþróttamót.

Fyrsta mót sinnar tegundar í Bretlandi

Breski háskólinn University of Warwick heldur mótið Warwick Esports Typing Championship 2021, þar sem keppt er í vélritun. Lokakeppni mótsins haldin á svokölluðum LAN-viðburði í rafíþróttahöll Warwick og þurfa keppendur að mæta á staðinn til að taka þátt.

Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt mót er haldið á LAN-viðburði í Bretlandi. Hver sem er getur tekið þátt og er skráning opin almenningi, með þeim skilyrðum að keppendur geti mætt til keppni í Warwick.

Undankeppnir hefjast á morgun og standa yfir til 7. janúar. Tuttugu og fjórir hröðustu vélritararnir komast upp úr undankeppnum og taka þátt í úrslitakeppninni sem fer fram þann 29. janúar næstkomandi.

Keppnin snýst um að vélrita sem hraðast, og verður notast við vélritunarforritið Keyma.sh. Nú þegar hafa um 100 manns skráð sig og margir sýnt mótinu áhuga. Hægt er að finna fleiri upplýsingar um mótið á Discord þjóni mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert