Óvænt úrslit í fyrstu viðureign

Team Liquid sigruðu NAVI í fyrstu viðureign BLAST Premier World …
Team Liquid sigruðu NAVI í fyrstu viðureign BLAST Premier World Final 2021. Ljósmynd/Team Liquid

Lokakeppni BLAST Premier í leiknum Counter-Strike: Global Offensive er nú í fullum gangi. Fjórðungsúrslitum efra leikjatrés er nú lokið og má segja að úrslit einnar viðureignarinnar hafi komið á óvart.

Öll lið fá tvö tækifæri

Keppnin er leikin í tvöfaldri útsláttarkeppni og viðureignir eru best-af-3, sem þýðir að liðin sem taka þátt þurfa að tapa tveimur viðureignum til að vera slegin út. Liðin sem sigruðu viðureignir fjórðungsúrslita halda beint í undanúrslit efra leikjatrés, en liðin sem töpuðu í fjórðungsúrslitum fá annað tækifæri í neðra leikjatré.

Það voru Team Liquid, Gambit Esports, G2 Esports og Team Vitliaty sem sigruðu viðureignir fjórðungsúrslita, en tapliðin féllu niður í neðra leikjatrés.

Team Liquid mættu NAVI í fyrstu viðureign mótsins, og voru úrslitin heldur betur óvænt. NAVI hafa verið óstöðvandi á árinu og var liðið valið rafíþrótta lið ársins, ásamt því að s1mple leikmaður NAVI var valinn rafíþróttamaður ársins.

NAVI töpuðu fyrstu viðureign sinni

Viðureign liðanna fór í þrjá leiki, og lauk með 2-1 sigri Team Liquid. Úrslitin komu aðdáendum um allan heim á óvart þar sem NAVI var spáð sigri í mótinu. NAVI er þó ekki úr leik, en liðið leikur nú í neðra leikjatré og þurfa að sigra allar sínar viðureignir sem eftir eru vilja þeir eiga möguleika á því að leika til úrslita.

Undanúrslit efra leikjatrés verða leikin í dag, en Team Liquid og Gambit Esports mætast í dag klukkan 15:30, og í kjölfarið mætast G2 Esports og Team Vitality klukkan 18:30. Einnig fara fram viðureignir í neðra leikjatré í dag. Allar viðureignir eru sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás BLAST Premier.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert