Returnal sá besti

Ljósmynd/Unsplash

Nörd Norðursins hefur birt lista yfir fimm bestu tölvuleiki ársins 2021. Niðurstöður voru fyrst tilkynntar í Leikjavarpinu, hlaðvarpsþætti Nörd Norðursins, og hefur listinn nú verið birtur á vefsíðu Nörd Norðursins. Í dómnefnd sátu tölvuleikjanördar Nörd Norðursins, þeir Bjarki Þór, Daníel Rósinkrans og Sveinn Aðalsteinn.

Sá leikur sem hlaut titilinn leikur ársins 2021 var róg- og skotleikurinn (e. rogue-like, shooter) Returnal frá finnska leikjastúdíóinu Housemarque. Dómnefnd var einhuga um þessa niðurstöðu.

„Haltu mér, slepptu mér“

Leikurinn gerist í framtíðinni og fer spilarinn með hlutverk Selene sem brotlendir geimflaug sinni á plánetunni Atropos. Selene er vopnuð hátæknibrynju og -vopnum og notar þau til að verja sig gegn árásum frá árásargjörnum geimverum. Auk þess er Selene föst í tímalykkju sem þýðir að í hvert sinn sem hún deyr endurlífgast hún sjálfkrafa og tímalykkjan endurræsist.

Að mati Nörd Norðursins inniheldur Returnal flotta grafík og framúrskarandi hljóðvinnslu þar sem hugsað er fyrir öllu, stóru sem smáu. Returnal er fljótur að refsa spilarnum ef honum mistekst og þar sem spilunin er hröð og áskorarnirnar margar gefur auga leið að leikurinn er ekki fyrir hvern sem er.

„Hann er haltu mér, slepptu mér samband í leikjaformi“ segir Steinar í gagnrýni sinni á leiknum sem birtist á vef Nörd Norðursins.

Íslendingur kom að gerð leiksins

Til gamans má geta þess að Íslendingurinn Ari Þór Arnbjörnsson kom að gerð leiksins þegar hann starfaði hjá Housemarque. Ari Þór starfar í dag sem boðberi hjá Epic Games sem er leikjafyrirtækið sem stendur á bak við hinn geysivinsæla Fortnite og Unreal leikjavélina. Hægt er að hlusta á nýlegt viðtal við Ara Þór í Leikjavarpinu.

Aðrir leikir sem komust á topplistann í ár eru samvinnuleikurinn It Takes Two, ævintýraleikurinn Ratchet & Clank: Rift Apart, skotleikurinn Deathloop og bílaleikurinn Forza Horizon 5. Hægt er að skoða listann í heild sinni og lesa um leikina á Nörd Norðursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert