Rafíþróttahöllin Arena heldur lan næsta þriðjudag í tölvuleiknum StarCraft 2 en það er herkænskuleikur byggður á vísindaskáldsögu sem gefinn var út af tölvuleikjafyrirtækinu Blizzard árið 2010.
Hefst lanið klukkan 19:00 á þriðjudagskvöldið og spilað verður til lokunar. Kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Arena að leikmönnum býðst að koma með sinn eigin búnað og er þá verið að meina lyklaborð, mús, heyrnatól og/eða músamottu en að þess þurfi ekki því allur búnaður sé nú þegar til staðar.
„StarCraft 2 samfélagið er lítið samfélag hér á Íslandi með kannski ekki nema tuttugu virkum spilurum og þekkjumst við allir vel. Við erum aðallega að gera þetta til þess að virkja fleiri spilara,“ segir Þórir Viðarsson, yfirþjálfari í Arena, í samtali við mbl.is.
„Á laninu ætlum við að leika okkur saman og hjálpa hvort öðru að bæta okkur í leiknum, og auðvitað hafa gaman!“