Dignitas ljúka árinu með sigri

Dignitas unnu Rocket League hluta Monaco Gaming Show.
Dignitas unnu Rocket League hluta Monaco Gaming Show. Ljósmynd/Dignitas

Úrslit rafíþróttamótsins Monaco Gaming Show fóru fram um helgina. M.a. var keppt í rafíþróttinni Rocket League á mótinu, sem var haldið á netinu á evrópskum leikjaþjónum.

Rafíþróttasamtök Mónakó ásamt rafíþróttafyrirtækinu Nicecactus voru mótshaldarar mótsins Monaco Gaming Show. 

Haustmeistararnir fjarverandi

Úrslit Rocket League hluta mótsins fóru fram í gærkvöldi. Átta lið tóku þátt í úrslitakeppninni, fjögur lið unnu sér sæti á mótinu í gegnum undankeppni og var hinum fjórum liðunum boðið að taka þátt.

Sigurvegarar haustmeistaramótsins, Team BDS, áttu upphaflega að taka þátt í mótinu, en ákváðu að draga sig úr keppni vegna mikils álags á leikmenn undanfarið. Það voru Sandrock Gaming sem komu í þeirra stað.

Það voru því liðin Endpoint CeX, Dignitas, Team Vitality, Sandrock Gaming, Team Liquid, NAVI, Team Queso og for fun smiley face sem mættu til leiks á Monaco Gaming Show. 

Dignitas stóðu uppi sem sigurvegarar

Keppt var í einfaldri útsláttarkeppni þar sem allar viðureignir voru best-af-7. Það voru Dignitas og Team Liquid sem sigruðu tvær viðureignir í röð og komu sér þannig í úrslitaviðureign mótsins.

Úrslitaviðureignin var einhliða, og lauk með 4-1 sigri Dignitas. Þess má geta að eini leikurinn sem Team Liquid sigruðu í viðureigninni fór í framlengingu og hefði sigur leiksins geta endað öðru hvoru megin. Apparently Jack, leikmaður Dignitas, var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert