Lokakeppni BLAST Premier í leiknum Counter-Strike: Global Offensive lauk í gærkvöldi. Var mótið síðasta stórmót ársins í leiknum og fór það fram í Kaupmannahöfn.
Það voru NAVI sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir að hafa farið lengri leiðina að titlinum.
Átta lið tóku þátt í mótinu, og farsæla lið NAVI meðal þeirra liða. Mótið var leikið í tvöfaldri útsláttarkeppni þar sem allar viðureignir voru best-af-3.
Í tvöfaldri útsláttarkeppni er keppt í efra og neðra leikjatré, sem þýðir að tapi lið viðureign fer það niður í neðra leikjatré, og tapi það í neðra leikjatré lýkur lið leik.
NAVI var spáð góðu gengi í upphafi móts, enda hefur liðið verið farsælt á árinu og var m.a. valið rafíþróttalið ársins á The Game Awards, ásamt því að s1mple, leikmaður liðsins, var valinn rafíþróttamaður ársins.
Eftir óvænt tap í fyrstu viðureign var ljóst að NAVI þurfti að taka lengri leiðina í gegnum neðra leikjatré. Með því að falla strax niður í neðra leikjatré þurfti NAVI að sigra allar sínar viðureignir sem eftir voru til að eiga möguleika á að sigra mótið.
Til að gera langa sögu stutta, þá náðu NAVI að sigra allar viðureignir sem eftir voru og stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins.
Eftir að hafa sigrað neðra leikjatré, mættu NAVI Gambit Esports í lokaúrslitaviðureign. Gambit Esports höfðu sigrað allar sínar viðureignir áður en þeir mættu í lokaúrslitaviðureignina.
Þegar talað er um að NAVI hafi farið lengri leiðina, má bera saman hversu margar viðureignir liðin þurftu að sigra til að komast í lokaúrslitaviðureignina, Gambit Esports sigruðu þrjár viðureignir til að komast í úrslit, en NAVI sigruðu fjórar.
Þegar í lokaúrslitaviðureign var komið, þá byrjuðu Gambit Esports betur og unnu fyrsta kort. Viðureignin var best-af-3, sem þýðir að gambit þurfti að landa einum sigri í viðbót til að ljúka keppni sem sigurvegarar.
NAVI voru hinsvegar ekki tilbúnir að lúta í lægra haldi eftir að hafa farið ósigraðir í gegnum neðra leikjatré, og sigruðu næstu tvo leiki úrslitaviðureignarinnar. Lokastaða viðureignarinnar var því 2-1 NAVI í hag.
Það var enginn annar en s1mple sem var valinn mikilvægast leikmaður mótsins, enda hefur hann spilað ótrúlega vel síðustu misseri og spilað lykilhlutverk í velgengni NAVI.
Halda NAVI menn heim á leið frá Kaupmannahöfn 65 milljónum íslenskra króna ríkari, eftir sigur á síðasta CS:GO stórmóti ársins. Er þetta jafnfram fjórða stórmótið sem liðið vinnur á árinu, og verður forvitnilegt að fylgjast með hvað næsta ár ber í skauti sér fyrir liðið.