Auknar vinsældir landafræðileiks

Ljósmynd/Kyle Glenn

Fjöldi einstaklinga sem spila landafræðileikinn GeoGuessr fer sífellt vaxandi. Leikurinn kom út árið 2013 og hefur aldrei verið vinsælli en nú.

Landafræðileikurinn GeoGuessr er einfaldur í spilun, og eru flestir sem spila leikinn til að stytta stundir í rólegheitum. Það eru þó einhverjir sem taka leiknum alvarlega og bætist sífellt við hóp þeirra. Streymi frá leiknum eru vinsæl á streymisveitunni Twitch.

Staðsetur leikmenn hvar sem er í heiminum

Tölva staðsetur leikmenn á stað í heiminum af handahófi, og er notast við Google Street View. Snýst svo leikurinn um það að nota vísbendingar til að giska á hvar á jörðinni leikmaðurinn var staðsettur í upphafi.

Leikmenn geta valið milli svæða sem þeir vilja verið staðsettir á, en einnig er hægt að velja alla jörðina. Hægt er að færa sig um í leit af fleiri vísbendingum.

Þegar leikmaður hefur giskað á þá staðsetningu sem hann heldur að hann hafi byrjað á, fær hann svo stig fyrir það hversu nálægt gisk hans er. 

Ekki hannaður sem keppnisleikur

GeoGuessr var ekki hannaður með því markmiði að leikmenn myndu keppa í leiknum eða taka hann alvarlega. Nú eru hinsvegar til atvinnumenn í leiknum, sem hafa sýnt ótrúlega hæfileika þegar kemur að því að giska á staðsetningar.

Vegna aukinna vinsælda bættu hönnuðir leiksins við keppnisham þar sem leikmenn geta spilað á móti hvor öðrum og safnað stigum.

Leiknum þarf ekki að hala niður, enda um vafraleik að ræða og er hægt að spila hann frítt á síðu GeoGuessr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert