Sims-leikirnir hafa notið mikilla vinsælda frá því að fyrsti leikur leikjaraðarinnar kom út, en síðast kom út leikurinn Sims 4 árið 2014.
Nú er Sims 5 í þróun, og bendir margt til spennandi nýunga og viðbóta í nýjum leik.
Lítið hefur verið um tilkynningar varðandi Sims 5, en EA, útgefandi Sims-leikjanna, staðfestu fyrr á árinu að leikurinn er í þróun. Ekki er vitað hvenær nýi leikurinn kemur út.
Samþykki á umsókn EA um einkaleyfi á nýrri tækni í Sims-leikjunum vakti athygli á dögunum. Tæknin sem sótt er um gerir spilurum kleift að bæta við myndum af einstaklingum í leikinn með því markmiði að gera Sims-persónu með sama útlit.
Tölva sér um að hanna Sims-persónur í sama útliti og á myndum sem spilarar hlaða inn, sem gefur spilurum tækifæri á að gera persónur sem líkjast þeim sjálfum, fjölskyldumeðlimum og í raun hverjum sem er.
Er þetta ný aðferð til að hanna persónur, og gæti aðferðin kryddað upp í hönnunarferli persóna í Sims-leikjum framtíðarinnar.
Áður hefur EA notað svipaða tækni, en það var snemma á tíunda áratugnum sem spilarar gátu sett inn myndir í Sims 1 og límt þær á andlit Sims-persóna. Sú tækni var þó hvergi nærri eins þróuð og sú sem hefur nú verið samþykkt.
Ekki kemur fram í umsókninni í hvaða Sims-leik tæknin verður notuð. Mögulegt er að sjá tæknina notaða í Sims 4 eða nýjum Sims 5 þegar hann kemur út.