Evrópudeildinni í Rainbow Six Siege er nú lokið. Úrslitakeppni deildarinnar fór fram síðastliðnar tvær helgar.
Það var franska liðið Team BDS sem fór með sigur af hólmi og eru því Evrópumeistarar ársins 2021.
Efstu fjögur lið deildarkeppninnar fóru í úrslitakeppnina, en það voru liðin Team BDS, Team Empire, NAVI og G2 Esports. Undanúrslitaviðureignir úrslitakeppninnar voru best-af-3, en úrslitaviðureignin var best-af-5.
Team BDS og G2 Esports mættust í fyrri undanúrslitaviðureign, sem lauk með 2-1 sigri Team BDS. Team Empire og NAVI mættust í seinni undanúrslitviðureign og hafði Team Empire betur og sigruðu viðureignina 2-0.
Liðin sem töpuðu í undanúrslitum mættust í viðureign uppá þriðja sætið, og þar hafði NAVI betur á móti G2 Esports.
Team BDS og Team Empire mættust í úrslitaviðureign sem var síður spennandi. Team BDS hafði mikla yfirburði í öllum þremur leikjunum sem leiknir voru í viðureigninni og má segja að Team Empire hafi aldrei átt möguleika á sigri.
Úrslitaviðureigninni lauk með 3-0 sigri Team BDS og eru þeir því Evrópumeistarar ársins 2021. Með sigrinum fá Team BDS rúmlega 7 milljónir króna í verðlaun.
Til gamans má geta að Team BDS sigruðu einnig haustmeistaramótið í Rocket League fyrr í mánuðinum, ásamt því að liðið tilkynnti nýlega uppfærslu á myndmerki liðsins.