Verstu leikir ársins

Ljósmynd/Axville

Tölvuleikjaiðnaðurinn er ekki alltaf dans á rósum. Þegar gefnir eru út nýir tölvuleikir er ekki sjálfgefið að leikurinn muni slá í gegn, og hafa einhverjir tölvuleikjaframleiðendur fundið fyrir því í ár.

Teknir hafa verið saman verstu tölvuleikirnir sem komu út á þessu ári samkvæmt Metacritic, sem er vefsíða sem safnar saman umsögnum m.a. um tölvuleiki. Á síðunni er leikjum gefin einkunn frá 1-100 og eru eftirfarandi þeir leikir sem hafa fengið lægstu einkunn.

Grand Theft Auto: The Trilogy – 47

Þríleikur Grand Thef Auto leikjanna kom út í nóvember á þessu ári og hefur alls ekki staðið undir væntingum aðdáenda. Leikjaröð GTA hefur notið mikilla vinsælda frá upphafi og hafa flestir spilarar einhverjar minningar tengdar leikjunum.

Nýjasti leikurinn olli miklum vonbrigðum og segja umsagnir að með þríleiknum hafi framleiðendum tekist að gera leikinn verri en aldrei áður og hafi töfrar leiksins með öllu horfið.

Of Bird and Cage – 44

Leikurinn Of Bird and Cage kom út í maí, en leiknum er lýst sem hljómplötu sem kynnt er í gegnum tveggja klukkustunda sögudrifnum leik. Lýsingin á leiknum gaf tölvuleikjaunnendum von um að hann gæti orðið skemmtilegur, en svo var ekki.

Ef marka má einkunn leiksins er eflaust betra að halda sér frá leiknum. Þrátt fyrir að leikur sé byggður á nýum hugmyndum og sé einstakur þýði það ekki að hann sé skemmtilegur.

Taxi Chaos – 42

Taxi Chaos kom út í febrúar þessa árs og er kappakstursleikur gerður eftir spilakassaútliti. Aðdáendur hins vinsæla Crazy Taxi fylltust eftirvæntinga og vonuðust eftir því að Taxi Chaos myndi endurvekja gamlar minningar.

Svo varð hinsvegar ekki og hefur leikurinn fengið slaka einkunn og mun eflaust vera geymdur og gleymdur á árinu sem er að líða. 

Werewolf: The Apocalypse Earthblood – 42

Leikurinn Werefolf: The Apocalypse er fyrsti stóri leikurinn byggður á hlutverkaleiknum World of Darkness. Aðdáendur World of Darkness voru spenntir fyrir nýjum og stórum leik, en voru fljótir að lýsa yfir óánægju sinni eftir útgáfu.

Werewolf: The Apocalypse kom út í febrúar á þessu ári og hefur hlotið þriðju verstu einkunn meðal leikja sem gefnir voru út á árinu.

Balan Wonderworld – 36

Balan Wonderworld kom út í mars, og er bardagaleikur byggður á Balan Teathre. Margir höfðu miklar væntingar til þessa leiks, en hönnuður leiksins er Yuji Naka, skapari vinsælu leikjanna Sonic the Hedgehog og Nights Into Dreams.

Leikurinn var byggður á góðum hugmyndum, en þær virtust ekki hafa heppnast og hafa spilarar lýst yfir vonbrigðum með hversu einfaldur og venjulegur leikurinn er. Stuttu eftir útgáfu leiksins hætti Yuji Naka hjá leikjafyrirtækinu Square Enix og fór að íhuga það að fara á eftirlaun.

eFootball 2022 – 25

Leikurinn eFootball tók upp nýtt nafn á árinu, en leikurinn var áður PES, og kom hann út í lok september þessa árs. Áður höfðu PES reynt ítrekað að verða aðalkeppinautur FIFA-leikjanna og ætluðu sér stóra hluti með nýju nafni leiksins.

Með lægstu einkunn allra leikja á árinu er vægt til orða tekið að segja að leikurinn hafi valdið vonbrigðum. Þarf að leita lengi og vel af jákvæðum athugasemdum um leikinn. EFootball er talinn versti leikur ársins og hefur hann valdið mestum vonbrigðum allra leikja á árinu að sögn umsagnaraðila. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert