Nörd norðursins hélt kosningu þar sem almenningur fékk að kjósa um besta tölvuleik ársins 2021. Fór kosningin fram í ummælakerfi við mynd sem Nörd norðursins birti á facebooksíðu sinni.
Þátttakendur skrifuðu í ummælum hvaða leikur ætti skilið að vera kosinn besti tölvuleikur ársins og voru þeir þá komnir í pottinn en sigurvegarinn hlaut gjafabréf hjá versluninni Gamestöðinni.
Áttu þátttakendur kost á að auka sigurlíkur sínar með því að taka einnig fram hvaða tölvuleik þeir væru spenntir fyrir á komandi ári.
Síðastliðinn föstudag var dregið úr pottinum í beinu streymi á twitchrás Nörds norðursins. Á streyminu fór Bjarki Þór Jónsson hjá Nördinu yfir leikinn og ræddi við áhorfendur um nýlegar fréttir tengdar tölvuleik ársins.
Hafði Bjarki sett inn öll nöfn þátttakenda í sérstakt forrit og voru nöfnin þá sett inn sem valkostir í rúllettu og var henni svo snúið til þess að finna sigurvegara en sigurvegari þessarar kosningar var hann Jón Viðar H. Kjerúlf.
Nörd norðursins hafði sjálft kosið tölvuleikinn Returnal sem leik ársins 2021 og ákvörðunin einhliða af þremur dómurum á vegum Nörds norðursins.
Hér að neðan má horfa á streymið.