Bandaríska þjóðvegaöryggisstofnunin hefur hafið formlega rannsókn á skýrslu sem heldur því fram að eigendur Tesla-ökutækja geti spilað tölvuleiki á miðskjá bílsins meðan á akstri stendur, segir í frétt frá Guardian.
Spilunin er virkjuð með eiginleika sem kallast „Passenger Play“. Í skjali sem birt var á netinu sagði skrifstofa gallarannsókna að möguleikinn á að spila við akstur hefði verið í boði síðan í desember 2020.
Fyrir þann dag var aðeins hægt að spila leiki á meðan ökutækið var í „park“-ham. Í skjalinu segir stofnunin að eiginleikinn geti truflað athygli ökumannsins og aukið hættuna á slysi.
Rannsóknin nær til um 580.000 rafbíla og jeppa sem komu út á árunum 2017 til dagsins í dag. Það nær yfir allar fjórar Tesla-gerðirnar, S, X, Y og 3, og var rannsóknin „til að meta truflunarmöguleika ökumanns Tesla „Passenger Play“ á meðan ökutækinu er ekið“.
Það kemur í kjölfar kvörtunar til stofnunarinnar um að Teslur búnar „leikjavirkni“ leyfi ökumanni að spila leiki á ferð. Rannsakendur „munu meta þætti eiginleikans, þar á meðal tíðni og notkunarsviðsmyndir Tesla „Passenger Play““. Telji stofnunin málið þess eðlis mun það leiða til innköllunar á umræddum bílum.
Samkvæmt Guardian-skýrslunni var kvörtun lögð fram af Tesla-eiganda að nafni Vince Patton, sem var gert viðvart um málið eftir að hafa séð youtubemyndband af Tesla-eiganda sem uppgötvaði að hann gæti spilað tölvuleik á snertiskjánum sínum meðan ökutækið var á ferð.
Hann fór með Tesluna sína á mannlaust bílastæði, kveikti á leik sem hét „Sky Force Reloaded“ og „undraðist“ þegar hann sá að hann gæti spilað hann á meðan hann æki bílnum. Hann sá líka að hann gæti vafrað á netinu á meðan hann æki Teslunni sinni.
„Það mun einhver verða drepinn. Þetta er algjörlega geðveikt,“ sagði hann við Guardian.