Endurgerður Diablo II kom út á árinu sem er að líða, en hvernig lítur árið 2022 út fyrir aðdáendur Diablo-leikjanna?
Fyrir rúmlega tveimur árum var tilkynnt að Diablo IV væri í vinnslu og virðast þróunaraðilar enn eiga langt í land með útgáfu leiksins.
Eftir dágóðan tíma í dvala er nú hart unnið að endurvakningu Diablo-leikjaraðarinnar. Farsímaleikurinn Diablo Immortal á að koma út á næsta ári, en lítið er af fréttum um útgáfu Diablo IV.
Miðað við þær upplýsingar sem Blizzard, framleiðandi Diablo-leikjanna, hefur veitt aðdáendum eiga þróunaraðilar enn langt í land með leikinn Diablo IV.
Lítur út fyrir að leikurinn verði ekki tilbúinn til útgáfu árið 2022, og eru aðdáendur farnir að hallast að því að hann muni koma út í fyrsta lagi árið 2023. Sýnishorn úr Diablo IV var gefið út snemma þessa árs, sem vakti von aðdáenda.
Eru þetta mikil vonbrigði fyrir Diablo-aðdáendur sem hafa beðið eftirvæntingarfullir frá fyrstu tilkynningu um nýjan leik. Þeir aðdáendur geta þó stytt sér stundir í farsímaútgáfunni sem kemur út árið 2022.