Verðlaunahæstu rafíþróttir ársins

Frá heimsmeistaramótinu í Dota 2, sem er verðlaunahæsta rafíþrótt ársins …
Frá heimsmeistaramótinu í Dota 2, sem er verðlaunahæsta rafíþrótt ársins 2021. Ljósmynd/Valve

Verðlaunafé í rafíþróttum er oft mikið, en upphæðir eru mismunandi eftir því um hvaða rafíþrótt ræðir.

Fimm verðlaunahæstu rafíþróttir ársins 2021 hafa nú verið afhjúpaðar. Verðlaunahæsta rafíþróttin var með rúmlega sex milljarða íslenskra króna í verðlaunafé á árinu.

Þær fimm rafíþróttir sem eru efstar á lista yfir mesta verðlaunafé ársins eru Dota 2, Counter-Strike: Global Offensive, PUBG, PUBG Mobile og Arena of Valor. 

Fimm verðlaunahæstu rafíþróttirnar

Fjöldi leikmanna og móta í hverri rafíþrótt fyrir sig er mismunandi, en fróðlegt er að skoða upphæð fjár miðað við það. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Esports Earnings.  

Arena of Valor – 1,7 milljarðar íslenskra króna

Leikurinn Arena of Valor er í fimmta sæti listans yfir verðlaunahæstu rafíþróttir ársins. Keppt er í leiknum í deildum víða í Asíu og eru háar upphæðir verðlaunafjár í boði. Samtals kepptu 332 leikmenn í 11 mótum árið 2021.

PUBG Mobile – 1,9 milljarðar íslenskra króna

Farsímaleikurinn PUBG Mobile er í fjórða sæti listans, en hann hefur notið mikilla vinsælda í Asíu. Voru það 717 leikmenn sem kepptu í leiknum á árinu á 21 móti.

PUBG – 2 milljarðar íslenskra króna

Með aðeins meira verðlaunafé en farsímaútgáfan er PUBG í þriðja sæti á listanum. Það voru 493 leikmenn sem tóku þátt í 37 mótum á árinu í leiknum PUBG.

Counter-Strike: Global Offensive – 2,7 milljarðar íslenskra króna

CS:GO er í öðru sæti listans, með fleiri leikmenn og mót á árinu en hinar fjórar rafíþróttirnar listans til samans. Haldin voru 487 mót og voru leikmennirnir 3.163 talsins. 

Dota 2 – 6,2 milljarðar íslenskra króna

Dota 2 hefur alltaf verið umtalaður fyrir háar upphæðir verðlaunafjár, og er rafíþróttin í efsta sæti listans með töluvert hærri upphæð en sú næsta. Voru það 904 leikmenn sem tóku þátt í mótum í leiknum á árinu, en haldin voru 80 mót.

Mikið breyst frá í fyrra

Þegar litið er til ársins 2020 má sjá að fjárhæðirnar voru langt frá því að vera eins háar og í ár. Útskýringin á þessu er heimsfaraldur, sem hindraði mótahald á stærstu mótunum, s.s. heimsmeistaramótinu í Dota, sem er verðlaunahæsta rafíþróttamót í heimi.

League of Legends og Fornite voru meðal efstu fimm verðlaunahæstu leikja árið 2020, en nú eru þær rafíþróttir í sjötta og sjöunda sæti. 

Samtals voru veittir rúmlega 25 milljarðar íslenskra króna í verðlaunafé á rafíþróttamótum á árinu á 3.988 mótum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert