Call of Duty tilkynnti á opinberum twitteraðgangi sínum að um 48.000 aðgangar hefðu verið bannaðir í tölvuleikjunum Vanguard og Warzone fyrir að svindla á einum sólarhring.
Call of Duty hefur verið að kljást við tölvurefi og vélmenni (e. bots) í nýjustu leikjum sínum og í kjölfar þess hafa margir aðgangar verið bannaðir.
Misjöfn eru ummæli tístsins þar sem sumir eru ánægðir með þessa ákvarðanatöku þróunaraðila leikjaseríunnar en aðrir eru ósáttir og telja að frekar ætti að koma í veg fyrir að tölvurefum takist að eiga við leikinn.
Nokkrir leikmenn hafa einnig svarað tístinu þar sem þeir segjast hafa verið varanlega bannaðir fyrir að sýna frá gloppu sem gerir þeim kleift að skella vopnum eða fatnaði í feluliti án þess að mæta þeim kröfum sem þarf til að geta það.
Eru leikmenn mjög ósáttir við það og telja það ósanngjarnt vegna þess að þeir voru í raun ekki að eiga við leikinn, á meðan þeir leikmenn sem spiluðu leikinn án þess að styðjast við gloppur telja það réttlætanlegt.