Knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero, eigandi rafíþróttafélagsins KRÜ Esports, vígði glænýja rafíþróttastöð félagsins annan í jólum.
Agüero streymdi frá því er rafíþróttastöðin KLÜB var opnuð, og voru starfsmenn og nokkrir leikmenn liða KRÜ einnig viðstaddir.
Rafíþróttastöðin er til húsa í Palermo-hverfi í argentínsku borginni Buenos Aires. Stærð stöðvarinnar er 739 fermetrar, ásamt verönd.
Æfingaaðstaða er í rafíþróttastöðinni fyrir fimm lið og er þar einnig að finna skrifstofur fyrir starfsfólk. Streymisherbergi, tíu leikmanna keppnisvöll og smábíó er einnig að finna í KLÜB-miðstöðinni.
Rafíþróttafélagið KRÜ Esports teflir fram liði í leikjunum Valorant, Rocket League og FIFA. Agüero segist spenntur fyrir næsta ári og er í skýjunum með opnun rafíþróttastöðvarinnar KLÜB.