Í síðustu viku fóru fram landsleikir í fyrstu undankeppni mótaraðarinnar eNations Qualifier en þar er keppt í tölvuleiknum FIFA 22 en alls eru fjórar undankeppnir fyrir heimsmeistaramótið.
Kepptu þeir Aron Þormar Lárusson, Tindur Örvar Örvarsson og Róbert Daði Sigurþórsson fyrir hönd Íslands og var leikjunum streymt í beinni á twitchrásinni footballiceland.
„Strákarnir voru að æfa og keppa alla síðustu viku í Arena,“ segir Alexander Aron, sem hefur nú umsjá með íslenska landsliðinu í FIFA í samtali við mbl.is.
Hann er sjálfur fyrrverandi landsliðsmaður sem hefur lagt músina á hilluna og einbeitir sér nú að því að hlúa að landsliðinu.
Ísland endaði í 6. sæti með 13 stig og stóðu keppendur sig „allt í lagi“ að sögn Alexanders Arons en hann segir strákana hafa verið ósátta við frammistöðu sína.
Undankeppnirnar eru haldnar í lok mánaðar og fara næstu leikir fram í enda janúar.