Tölvuleikjaframleiðandinn Riot Games samþykkti í gærkvöldi að greiða hundrað milljónir bandaríkjadala til að komast hjá því að hópmálsókn, sem varðaði launamismunun, kynbundna fordóma og kynferðislega áreitni, færi fyrir dómstóla.
Málið var höfðað í nóvember ársins 2018 í kjölfar umfjöllunar tölvuleikjavefsíðunnar Kotaku um kynbundna fordóma Riot Games.
Fjallaði Kotaku um hvernig litið var fram hjá konum þegar kom að stöðuhækkunum, óæskilegar kynferðislega viðreynslu og karla sem drógu hæfni kvenkyns starfsmanna fyrirtækisins í efa.
Í kjölfarið stigu fyrrverandi starfsmenn Riot Games fram og sögðu svipaða sögu.
Atvinnuréttindaskrifstofa Kaliforníu segir að samkomulagið muni bæta fyrir brot gegn meira en tvö þúsund kvenkyns starfsmönnum fyrirtækisins.
Riot Games hefur samþykkt að bæta kjör og veita kvenkyns starfsmönnum og umsækjendum meira jafnrétti á vinnustöðum fyrirtækisins.