Aðdáendur Dark Souls-leikjanna búa sig nú undir komu eftirfara þeirra leikja, Elden Ring, sem kemur út árið 2022. Mikil eftirvænting hefur verið eftir leiknum. Rithöfundurinn George R.R. Martin tók þátt í gerð sögu Elden Ring.
Martin skrifaði pistil í kjölfar tilkynningu um staðfestan útgáfudag leiksins.
„Fyrir nokkrum árum leitaði Hidetaka Miyazaki til mín og spurði hvort ég vildi taka þátt í gerð sögu nýs leiks sem hann og lið hans unnu að.
Ég er ekki mikið inni í tölvuleikjum og því sem þeim tengist, en mér fannst þetta tækifæri spennandi og gat ekki neitað,“ segir Martin í pistli sínum
Hann bætir við að hann hafi þó spilað leikina Railroad Tycoon, Romance of Three Kingdoms og Master of Orion þegar hann var yngri.
„Miyazaki og lið hans hjá leikjahönnunarfyrirtækinu FromSoftwere voru að gera byltingarkennt efni með glæsilegri list.
Það sem þeir vildu frá mér var aðstoð við heimsuppbyggingu og forsögu nýs leiks. Heimurinn sem hönnuðir höfðu í huga var djúpur og dimmur, sem yrði undirstaða leiksins sem þeir unnu að,“ segir Martin.
Martin hefur mikinn áhuga á heimsuppbyggingu og hefur ástríðu fyrir því að skrifa ímyndaða sögu. Það þurfti því ekki að spyrja hann tvisvar hvort hann væri til í verkefnið.
„Ég gerði mitt og teymi hjá FromSoftware tók svo við. Nú nokkrum árum seinna er útgáfudagur Elden Ring loksins staðfestur og ég verð að segja að leikurinn lítur ótrúlega vel út,“ skrifar Martin í lok pistilsins.