Leikurinn Call of Duty: Warzone hefur nú bætt við földum jólaálfum í leikinn, sem leikmenn geta þefað uppi og fengið verðlaun fyrir.
Allir leikmenn geta tekið þátt í leitinni að jólaálfunum, en álfarnir eru vel faldir á víð og dreif um stóra kortið Caldera. Leitin stendur yfir til 4. janúar næstkomandi, svo enn er nægur tími til að hefja leitina.
Jólaálfarnir skera sig úr umhverfinu vegna hrollvekjandi andlits og truflandi hláturs síns. Með því að hlusta eftir hlátrinum ætti að vera einfalt að staðsetja þá.
Þrír álfar fela sig á svipuðu svæði í hvert skipti, t.d. í sömu byggingu eða landsvæði. Þess má geta að staðsetning álfanna breytist í hverjum leik.
Þegar leikmenn hafa fundið álf þarf að fella hann svo hann teljist með til verkefnis sem skilar verðlaunum, en þegar tólf álfar hafa verið fundnir og felldir er verkefninu lokið. Að verkefni loknu fá leikmenn aukahluti innan leiksins í verðlaun.
Með því að fella álfa í leiknum geta leikmenn einnig fengið varning sem nýtist í leiknum hverju sinni, s.s. pening eða endurlífgunarpakka.