Vinsælir streymar á streymisveitunni Twitch eru ekki óhultir fyrir bönnum frá veitunni. Twitch er duglegt að banna þá sem brjóta af sér, en atvikin sem þeir banna fyrir eru oft umdeild.
Margir frægir streymar lentu í því að vera bannaðir tímabundið á veitunni í ár. Áhorfendur voru oftar en ekki ósammála Twitch með bönnin sem fóru í gegn á árinu, og má deila um hvort margir þeirra sem urðu fyrir barðinu hafi raunverulega brotið reglur.
Þegar streymir er bannaður er oft talað um að hann verði undir bann-hamri Twitch. Hér eru umdeildustu bönn ársins á vinsælum streymum.
Disguised Toast gerði nýlega endurkomu á streymisveituna Twitch, eftir að hafa verið fjarverandi þaðan í rúm tvö ár. Í apríl þessa árs var Disguised Toast að skoða gömul myndbönd af sér í beinni útsendingu.
Eitt myndbandanna innihélt orðatiltæki um samkynhneigð, og var hann bannaður vegna þessa. Bannið var óvænt, bæði fyrir hann og áhorfendur.
Streymirinn xQc er enginn nýgræðingur þegar kemur að bönnum á Twitch, enda hefur hann verið bannaður nokkrum sinnum á árinu. Eitt bannið stóð upp úr, og var hann virkilega ósammála Twitch í það skipti.
Þegar Ólympíuleikarnir voru í fullum gangi tók xQc sig til og ákvað að horfa á þá í beinni útsendingu á streymi sínu. Hann vissi ekki að það væri brot á reglum Twitch, og var hann bannaður í kjölfarið.
Aðdáandi hans setti færslu á Twitter í kjölfarið og sagði að „Ólympíuleikarnir snúast um að sameina heiminn, en Twitch virðist ekki vera sammála“.
Bann Hasanabi gerðist nýlega, og olli usla í samfélagi streyma. Hasanabi lenti í rifrildi við áhorfendur í beinni útsendingu og lét út úr sér orðið „cracker“, sem er talið rasískt orðbragð gegn hvítu fólki. Hasanabi var þó alls ekki sammála, og samfélagið var tvískipt í umræðunni sem var í gangi í langan tíma.
Var streymirinn þó ekki bannaður samstundis, sem er venjan, heldur fékk hann bannið nokkrum dögum síðar og fullyrðir Hasanabi að umræða sem skapaðist í kjölfar atviksins hafi orðið til þess að hann var bannaður.