Árið 2020 hafði slæm áhrif á stærstu rafíþróttaviðburði heims vegna heimsfaraldurs. Ferðatakmarkanir leiddu til þess að ómögulegt var að halda LAN-viðburði, sem setti allt úr skorðum.
Það birti til árið 2021 og má segja að rafíþróttaviðburðir hafi gert góða endurkomu á árinu þrátt fyrir að heimsfaraldur standi enn yfir.
Á ári hverju eru haldin heimsmeistaramót, stórmeistaramót og önnur stór mót þar sem lið og leikmenn hvaðan sem er í heiminum mæta til leiks á svokallaða LAN-viðburði og keppast um titla á jöfnum keppnisvelli.
Þegar heimsfaraldur gerði vart um sig og ferðatakmarkanir tóku í gildi var því ómögulegt að halda slík mót, og var í kjölfarið mörgum mótum aflýst og önnur neyddust til að halda minni svæðisbundnar keppnir sem spilaðar voru á netinu.
Þrátt fyrir að heimsfaraldur hafði áhrif á stærstu mótin, voru þó mörg minni mót haldin á netinu, enda hafa rafíþróttir það yfir aðrar íþróttir að hægt er að spila heimanfrá sér og hentar það vel í heimsfaraldri.
Aðdáendur rafíþrótta leyndu ekki gleðinni þegar rafíþróttamót á LAN-viðburðum sneru aftur árinu. Það voru þó ekki mörg mót sem leyfðu áhorfendur í sal vegna heimsfaraldursins, einhverjum aðdáendum til mikilla vonbrigða. Allir viðburðir voru þó sýndir í beinni útsendingu á netinu.
Stærstu rafíþróttaviðburðir ársins voru TI10 í Dota 2, heimsmeistaramótið í League of Legends, stórmeistaramót PGL í Counter-Strike: Global Offensive og heimsmeistaramótið í Mobile Legends: Bang Bang.
Margir rafíþróttaviðburðir eru nú þegar áætlaðir á árinu 2022, og lítur allt út fyrir að þeir geti farið fram með eðlilegu sniði líkt og árið 2021. Aðdáendur halda í von um að fleiri viðburðir bjóði uppá áhorfendur í sal á næsta ári.