Sérhæfðari þjálfun á nýrri önn

Þjálfararnir Þórir Viðarsson og Julios Freysson í Arena.
Þjálfararnir Þórir Viðarsson og Julios Freysson í Arena. Árni Sæberg

Rafíþróttadeild Breiðabliks er í samstarfi við rafíþróttahöllina Arena og hafa því æfingar Breiðabliks farið þar fram að undanförnu.

Opnað hefur verið fyrir skráningu í vorönnina fyrir aldurshópana átta til sextán ára og er undirbúningur í fullum gangi þar sem að æfingar hefjast 10. janúar.

Breytingar á næstu önn

„Síðasta önn heppnaðist gríðarlega vel og við fengum frábærar móttökur,“ segir Þórir Viðarsson, yfirþjálfari Arena, í samtali við mbl.is.

„Á þessarri önn ætlum við að taka við enn fleiri iðkendum, æfingar verða með aðeins öðruvísi sniði þar sem iðkendur fá nú sérhæfðari þjálfun í þeim leikjum sem þeir vilja spila.“

Þórir Viðarsson, yfirþjálfari Arena, mun fara með alla þjálfun á vorönn ásamt Juliosi Freyssyni en þeir hafa báðir mikla reynslu á spilun og kennslu.

Reynsluboltar fara með þjálfun

Þórir er lærður þjálfari frá ÍSÍ og RÍSÍ auk þess að hafa setið í rafíþróttasenunni í rúm tuttugu ár en Julios er með meistararéttindi í framleiðslu auk þess að hafa mikla reynslu í starfi með börnum innan veggja grunnskóla en hann hefur einnig setið í rafíþróttasenunni í rúm ellefu ár.

„Okkur langar líka til þess að fá stundum til okkar einhverja gestaþjálfara, þá fólk sem er rosalega gott í sinni grein til þess að koma og kenna okkur eitthvað nýtt sem að við kunnum ekki,“ segir Julios.

„Auðvitað er ég bara mjög spenntur fyrir þessu og þetta leggst vel í okkur Þóri.“

Skráning fer fram í gegnum þennan hlekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert