Japanska fyrirtækið Bauhutte, sem meðal annars stendur fyrir afþreyingarrúminu, hefur nú gefið út glænýja vöru fyrir tölvuleikjaspilara sem snýr að nuddi í þetta skiptið.
Tækið heitir Handanuddarinn (e. Hand Massager) og er sérhannað til að sefa hendur tölvuleikjaspilara. Það samanstendur af fimmtán loftpúðum sem eiga að draga úr þreytu notenda frá lófanum yfir í hvern fingur fyrir sig.
Hún býr að þremur mismunandi stillingum sem gerir notendum kleift að velja hversu fast eða blítt tekið er á hendinni og eins geta notendur valið um hvort öll höndin sé nudduð eða einungis fingurnir.
Innan í nuddtækinu er valkvæður hitari sem Bauhutte mælir með að nota áður en spilun hefst til þess að hita höndina upp.
Fyrirtækið leggur einnig til að spilarar notist við nuddtækið þegar þeir taka sér hlé frá spilun til þess að auka blóðflæði og jafnframt gæti verið gott að nota það til að kæla sig niður eftir spilun.
Nuddtækið er einungis aðgengilegt í Japan sem stendur og kostar tæplega 20.000 krónur en Bauhutte er með vefsíðu á ensku svo líkur eru á að nuddtækið fari í alþjóðlega sölu seinna.