StreamCharts birti lista yfir þá efnishöfundi á streymisveitunni Twitch sem voru vinsælastir síðastliðið ár, árið 2021.
Vinsælasti kvenkyns streymirinn var engin önnur en hún Amouranth en hún situr efst á kvennalistanum með áhorf upp á 37,4 milljónir klukkustunda.
Í gegnum árið hefur hún streymt af sér í kringum 3,8 þúsund klukkustundum og vegna þess er hún einnig á tíu sæta lista yfir þá sem hafa streymt hvað lengst yfir árið.
Amouranth er nokkuð umdeild og hefur sætt fjölmörgum bönnum á veitunni fyrir óviðeigandi hegðun og hefur mbl fjallað um hana áður en hún hefur verið mikið í sviðsljósinu upp á síðkastið.
Hefur hún meðal annars tekið þátt í svokölluðum heitupottastreymum, sofið í beinni útsendingu, haldið „subathon“ ásamt fleiri uppákomum á veitunni.
Vinsælasti karlkyns efnishöfundurinn er hann xQc en hann er einnig vinsælasti streymir síðasta árs óháð kyni. Hann prýðir því fyrsta sæti vinsældalistans með áhorf upp á 269 milljónir klukkustunda.
Hefur áhorf á streymið hans aukist um 78% frá því árið 2020 þrátt fyrir að hann hafi eytt 50 færri klukkustundum á veitunni á síðasta ári.
Hann hefur, líkt og Amouranth, nokkrum sinnum sætt banni á streymisveitunni, fyrst árið 2019 þegar hann streymdi frá klámfengnu myndbandi sem hulið var með eins konar teikningu.
Nokkrum áhorfendum þess streymis þótti lítið til þess koma og sendu Twitch ábendingu um atvikið og var hann settur í 72 klukkustunda bann í kjölfarið.