Strákarnir í GameTíví fögnuðu nýju ári með svokölluðum kryddpylsuþætti á sunnudagskvöldið þar sem ýmsar uppákomur komu fyrir í þættinum.
Var þátturinn ætlaður sem partýþáttur en einnig var gerð uppgjör á liðnu ári hvað varðar rafíþróttir.
Fengu þeir til sín nokkra gesti í þáttinn þar sem ræddir voru tölvuleikjatengdir hlutir.
Meðal gesta voru Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands, ásamt tölvuleikjastreymurunum Benna, Mónu, Evu, og Ölmu.
Benni er hluti af streymisþættinum Sandkassinn, Móna er hluti af streymisþættinum Queens og tvíburarnir Eva og Alma eru hluti af fjóreykinu Babe Patrol.
Auk skemmtilegra gesta sem komu við í þættinum sýndi Dói frá húðflúri sínu ásamt því að dýfa bæði síld og kattarmat í ónefnda dýfu og smakka á.
„Ég get ekki undirstrikað hvað er ógeðsleg lykt af þessum kattarmat, og bragðið er verra!“ segir Dói eftir að hafa smakkað á kattarmat með ónefndri dýfu.
Hér að neðan er hægt að horfa á Kryddpylsuna í heild sinni.