Techland tísti nýlega frá því að það tæki leikmenn um fimm hundruð klukkustundir að klára tölvuleikinn Dying Light 2 Stay Human en hefur nú gefið út skýrari upplýsingar eftir misjafnar viðtökur.
„Við vildum skýra nýlegar upplýsingar okkar um fjölda klukkustunda sem þarf til að klára leikinn. Dying Light 2: Stay Human er hannaður fyrir leikmenn með mismunandi leikstíl og langanir til þess að kanna heiminn hvernig sem þeim sýnist,“ segir í nýlegu tísti á opinberum Twitter-aðgangi tölvuleiksins.
Meðfylgjandi tístinu er mynd sem sýnir að það taki ekki nema um tuttugu klukkustundir að klára aðalsöguþráð leiksins en 80 klukkustundir að klára bæði aðalsöguþráðinn ásamt hliðarverkefnum.
Skýringin á þeim 500 klukkustundum sem Techland hafði áður talað um er að það tæki þann tíma að klára allt sem er í boði í leiknum. Er þá verið að meina að klára aðalsöguþráðinn, öll hliðarverkefni, skoða allt kortið, eiga öll samtöl, safna öllum minjagripum og fleira í þá áttina.