2021-22 keppnisárið í GTS Iceland, íslensku mótaröðinni í Gran Turismo Sport, hófst á ný í vikunni eftir 4 vikna jóla- og nýársfrí.
Nýtt keppnistímabil hófst í neðri deildunum, Tier 2 og Tier 3, á meðan efsta deildin, Tier 1, hóf seinni helming tímabilsins þar. Keyrt er í mótaröðinni á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum aðra hverja viku og allar keppnir sýndar í beinni útsendingu á YouTube rás GTS Iceland.
Í efstu deild var það Eva María í keppnisliðinu Supernova sem fór með sigur af hólmi. Hún náði ráspól í tímatökum og keyrði af miklu öryggi alla keppnina. Ævar Valur Diego keyrði sína allra bestu keppni hingað til og nældi sér í annað sætið, en þetta var jafnframt hans fyrsta keppni á verðlaunapalli í GTS Iceland.
Ævar keyrir fyrir keppnisliðið CARVEL. Það var svo liðsfélagi Evu, Hannes Jóhannsson, sem tók þriðja sætið, og því báðir bílar Supernova á verðlaunapalli.
Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 1 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.
Tier 2 keppnin var vafalaust sú mest spennandi af keppnum vikunnar, þar sem nóg var um hasar og framúrakstra.
Það var þó hann Ívar Eyþórsson, ökumaður keppnisliðsins GT Akademían Racing sem var í sérflokki og sigraði keppnina með nokkrum yfirburðum. Róbert Þór Guðmundsson lenti í öðru sæti, með liðsfélaga sinn Ragnar Egilsson á eftir sér í 3. sæti, en þeir félagar keyra í liðinu THOR Racing Team.
Gaman er frá því að segja að þeir tveir voru miklir keppinautar fyrir áramót þar sem þeir slógust um titilinn á Vetrartímabili Tier 3 deildarinnar, en hafa nú sameinað krafta sína eftir að hafa áunnið sér þáttökurétt í Tier 2.
Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 2 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.
Það mættu níu keppendur til leiks í opnunarkeppni Vortímabils Tier 3, sem er opna deild GTS Iceland. Af þessum níu keppendum var meira en helmingur að keyra sína fyrstu keppni í mótaröðinni.
Það var þó reynsluboltinn Dimmi Nikolov sem tók sigurinn eftir að hafa ræst í 6. sæti. Agnar Freyr, sem ræsti fremstur, landaði öðru sætinu með nýliðann Hafstein Veigar Ragnarsson á eftir sér í þriðja sæti. Þrátt fyrir tiltölulega fáa keppendur, þá var heilmikið fjör á brautinni og góð keppni að baki.
Hægt er að nálgast stigatöfluna ásamt öllum upplýsingum um Tier 2 deildina HÉR.
Upptöku af keppninni má sjá HÉR.