Tölvuleikjastreymirinn Rósa Björk Einarsdóttir, einnig þekkt sem Rosagoonhunter69, hefur ákveðið að halda söfnunarstreymi annað kvöld fyrir Píeta-samtökin en þau sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum, sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.
Rósa heldur styrktarstreymið til heiðurs Finnboga Má Ólafssyni, bróður hennar sem lést fyrir fimmtán árum síðan.
Fyrir nokkrum dögum síðan kom upp atvik í miðju Discord-spjalli á meðal Rósu og annarra ræðumanna þar sem rætt var um sjálfsvíg og bróður hennar en samtalið fór úr böndunum og fékk verulega á Rósu.
Eftir nokkurra daga umhugsun ákvað hún að blása til söfnunarstreymis fyrir Píeta-samtökin í kjölfar atviksins sem kom upp á Discord.
„Mér finnst mjög mikilvægt að vekja athygli á þessu vegna þess að það eru svo margir, fleiri en maður heldur, sem þjást í þögn og finnst eins og þeir hafi enga aðra kosti en að fremja sjálfsvíg,“ segir Rósa í samtali við mbl.is.
„Ég hef sjálf verið á vondum stað og leitað til Píeta-samtakanna og þau hjálpuðu mér þegar ég var upp á mitt allra versta. Ég vil því styrkja þessi frábæru samtök eins og ég get með þessu streymi í nafni bróður mins sem lést árið 2007 fyrir eigin hendi.“
Mun Rósa streyma á Twitch í heilan sólarhring frá klukkan 22 annað kvöld og fá til sín ýmsa þekkta gesti á borð við Herra Hnetusmjör, Flóna, Ásgeir úr Stop Wait Go, Raxi og Dusty strákana í CS:GO sem munu spila með henni tölvuleiki auk skemmtilegra uppákoma.
Áhorfendum er frjálst að gefa eigin framlög og mun Rósa taka á vissum áskorunum á streyminu eftir því fjármagni sem safnast.
Meðal áskoranna eru símaöt, fræga sykurpúða áskorunin Chubby Bunny og Fortnite dansar, auk þess sem hún mun skrifa nöfn áhorfenda á sjálfa sig og rafíþróttamenn úr Dusty munu lita á sér hárið. Þá mun hún einnig gefa kassa af Nocco og sömuleiðis kemur til greina að hún fái sér húðflúr með merki Píeta-samtakanna.
Hægt er að fylgjast með og taka þátt í fjáröfluninni á Twitch rásinni Rosagoonhunter69.
Símanúmerið hjá Píeta samtökunum er 552-2218 og eru einstaklingar sem telja sig þurfa á hjálp að halda hvattir til þess að leita til samtakanna.