Orðagátuleikurinn Wordle, sem heillað hefur heimsbyggðina undanfarna mánuði, er nú í eigu útgáfufyrirtækis New York Times.
Kaupin, sem kynnt voru nú fyrir stundu, eru í umfjöllun dagblaðsins sögð endurspegla vaxandi mikilvægi leikja fyrir það markmið fyrirtækisins að ná tíu milljónum áskrifenda fyrir árið 2025.
Skapari Wordle, hugbúnaðarverkfræðingurinn Josh Wardle frá Brooklyn, seldi leikinn fyrir „lága sjö stafa tölu“ í bandaríkjadölum talið, að sögn Times.
Í íslenskum krónum talið gætu kaupin því ef til vill hljóðað upp á um 130 til 500 milljónir króna.
Leikurinn mun að sögn fyrirtækisins verða enn í boði ókeypis fyrir spilara, að sinni.
Wardle sagði sjálfur fyrr í mánuðinum að „hann þurfi ekki að rukka fólk fyrir þennan leik og vilji helst halda því þannig“.
Þann 1. nóvember á síðasta ári hafði Wordle um 90 spilara að meðaltali á dag. Um miðjan þennan mánuð voru þeir 300 þúsund og nú spila milljónir manna leikinn daglega, að því er segir í tilkynningu New York Times.