Mason Greenwood, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið fjarlægður úr fótboltatölvuleiknum vinsæla, FIFA 22, eftir að hann var handtekinn grunaður um nauðgun og líkamsárás.
Þegar félagaskiptaglugginn lokar víðs vegar um Evrópu er leikurinn uppfærður svo leikmannalistar evrópsku félaganna séu í takt við nútímann.
Í slíkri uppfærslu sem fór í loftið í dag er Greenwood ekki lengur að finna í leikmannahópi Manchester United, þó félagið hafi ekki enn formlega sagt honum upp störfum.
Eftir að Greenwood var handtekinn eftir að kærasta hans birti myndir af sér með ljót sár og hljóðupptöku af manni, sem talinn er vera Greenwood, að beita hana kynferðisofbeldi, gaf United frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að hann fengi ekki að æfa né spila með United að sinni.
Í netverslun United er ekki lengur hægt að velja nafn og treyjunúmer Greenwoods og því ekki í boði að kaupa treyju merkta honum.
Íþróttavöruframleiðandinn Nike hefur þá sagt upp samstarfi sínu við Greenwood.